Kristinn D. Grétarsson hefur verið ráðinn forstjóri ORF Líftækni og dótturfélagsins Sif Cosmetics. Kristinn var áður forstjóri líftæknifyrirtækisins Mentis Cura ehf. Hann hefur víðtæka stjórnunarreynslu í alþjóðaviðskiptum á heilbrigðissviði.

Kristinn var framkvæmdastjóri fjármögnunar hjá Straumi Burðarási frá árinu 2006 til 2011 þegar hann tók við stöðu forstjóra Mentis Cura. Hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra Novartis Pharmaceuticals á Íslandi 2003-2006 og stýrði markaðsstarfi Taugagreiningar ehf. frá árinu 2000 til 2003. Kristinn situr í stjórn heilbrigðistæknifyrirtækisins Mint Solutions.

Kristinn er með mastersgráðu í viðskiptafræði og alþjóðaviðskiptum frá háskólanum í Alabama og dvaldi um 10 ár í Bandaríkjunum við nám og störf, fyrst hjá verslunarráði Alabama og síðan hjá Coldwater Seafood Corporation.