Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að auglýsing Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar, sem skartar Kristni R. Ólafssyni í aðalhlutverki, brjóti gegn ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Í auglýsingunni er sett fram fullyrðingin „Merrild, besta kaffihúsið í bænum”, og bannar Neytendastofa Ölgerðinni að nota fullyrðinguna í auglýsingum sínum.

Orðaleikur hjá Kristni

Málavextir eru þeir að fyrirtækið Innnes ehf. lagði fram kvörtun vegna umræddra auglýsinga Ölgerðarinnar á þeim forsendum að ekki hefðu verið færðar sönnur á fullyrðinguna sem þar kemur fram.

Ölgerðinni mótmælti og sagði m.a. í svarbréfi sínu að í auglýsingunni kæmi fram þjóðþekktur einstaklingur, þ.e. Kristinn, sem kunnastur sé fyrir viðamikla þekkingu á spænskri menningu og þjóð.

Umrædd fullyrðing sé orðaleikur hjá Kristni því eins og fram komi í auglýsingunni þyki honum kaffisopinn alltaf bestur heima hjá sér þrátt fyrir fjölda góðra kaffihúsa í Madrid.

Á Íslandi sé hins vegar ekki rekið kaffihús undir merkjum Merrild og sé hvorki um að ræða beinan né óbeinan samanburð við keppinaut Ölgerðarinnar.

Í ákvörðun Neytendastofu segir m.a.:

„Að mati Neytendastofu er það engum vafa undirorpið að Kristinn R. Ólafsson kemur fram í eigin nafni í auglýsingunni. Af þeim sökum verður að álykta að hann setji þar fram skoðun sína á því hvaða kaffi honum líkar best. Kvenmannsröddin (sem ber fram umrædda fullyrðingu í lok auglýsingar) sem fullyrðir að Merrild sé besta kaffihúsið í bænum er að mati Neytendastofu ekki að túlka skoðanir Kristins. ... Að mati Neytendastofu er augljós sá tilgangur fullyrðingarinnar að gefa þá mynd að Merrild sé besta kaffið. Slík fullyrðing hlýtur að vera byggð á mati en ekki staðreyndum.”

Á þeim forsendum sé fullyrðingin villandi og ósönnuð og brjóti gegn lögum.