Slitastjórn Kaupþings krefur Kristján Arason, fyrrverandi framkvæmdastjóra einkabankaþjónustu Kaupþings, um greiðslu 530 milljónir króna vegna 1,7 milljarða króna lána sem hann fékk hjá bankanum til kaupa á hlutabréfum bankans. Til vara er krafist þess að hann greiði 388 milljónir króna í skaðabætur. Kristján færði lánin og hlutabréf bankans yfir í hlutafélagið 7 hægri ehf í febrúar árið 2008. Í október fór Kaupþing í þrot og urðu hlutabréfin í bankanum verðlaus.

Aðalmeðferð fer fram í máli slitastjórnarinnar gegn Kristjáni í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Fréttavefur Vísis segir um málið aðeins tvo starfsmenn bankans hafa fengið að færa eignir sínar og skuldir inn í einkahlutafélag. Fram hafi komið í aðalmeðferðinni að svo virðist sem Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, hafi einn gefið Kristjáni leyfi til að haga málum með þessum hætti og það ekki lagt fyrir stjórn bankans. Hreiðar bar vitni í málinu í dag. Hreiðar benti á að þetta hafi hann leyft þar sem trygging fyrir lánunum voru hlutabréf Kristján í bankanum. RÚV bætir því við að Kristján hafi tekið lánin í eigin nafni og hafi hann með færslu þeirra inn í einkahlutafélag viljað skilja fjármál heimilisins frá fjárfestingum í hlutabréfum.

Einkahlutafélag Kristján var tekið til gjaldþrotaskipta í desember árið 2010. Engar eignir fundust upp í kröfur. Skuldir þess námu þá rúmum tveimur milljörðum króna.