*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Innlent 6. apríl 2021 17:03

Kristján brjóti lög um ráðherraábyrgð

Að mati Félags atvinnurekenda brýtur auglýst útboð á tollkvótum skýrlega gegn lögum um ráðherraábyrgð.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Að mati Félags atvinnurekenda (FA) gengur nýbirt auglýsing um útboð tollkvóta, vegna innflutnings á evrópskum landbúnaðarafurðum frá upphafi maí til miðbiks september, gegn lögum um ráðherraábyrgð. Fyrirkomulagið sem er við lýði var nýverið dæmt í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár.

Um miðjan síðasta mánuð komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag útboðs tollkvóta sem áður var í gildi, og tekið var upp að nýju til bráðabirgða, stæðist ekki ákvæði stjórnarskrár um að skattar skyldu lagðir á með lögum. Blaðið hefur ekki upplýsingar um það hvort ríkið hafi í hyggju að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Í frétt á vef FA segir að félagið hafi sent Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bréf þar sem bent er á að hið auglýsta útboð nú sé í andstöðu við stjórnarskrá og sem og lög um ráðherraábyrgð. Dómur Landsréttar sé endanlegur og bindandi nema Hæstiréttur samþykki að taka málið fyrir. Jafnvel þá haldi dómurinn gildi sínu þar til endanlegur dómur Hæstaréttar liggur fyrir.

 „Umrætt fyrirkomulag, sem Landsréttur telur afdráttarlaust að brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, var að frumkvæði ráðherra tekið upp á nýjan leik um síðustu áramót með breytingu á búvörulögum. Í ljósi niðurstöðu Landsréttar er að mati FA óhugsandi að gjaldtaka vegna tollkvótanna geti farið fram að óbreyttu enda liggur fyrir fortakslaus dómur áfrýjunardómstóls um ólögmæti hennar. FA telur að ráðherra verði að hafa atbeina að því að Alþingi breyti búvörulögum á nýjan leik eða úthluti tollkvótunum án gjalda. Ella er um að ræða skýrt ásetningsbrot ráðherra gegn stjórnarskrá lýðveldisins,“ segir í erindi FA til ráðherrans.

Í lögum um ráðherraábyrgð segir meðal annars að það varði ráðherra ábyrgð samkvæmt lögunum ef hann framkvæmdir sjálfur, fyrirskipar framkvæmd á eða lætur viðgangast að framkvæmt sé nokkuð, er fer í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.