Kristján Freyr Kristjánsson hefur verið ráðinn í framkvæmdastjórn Meniga og mun bera ábyrgð á öllum íslenskum viðskiptum fyrirtækisins. Kristján lét nýlega af störfum sem framkvæmdastjóri Klak Innovit eftir fimm ára farsælt starf hjá fyrirtækinu.

Kristján Freyr Kristjánsson hóf störf hjá Klak Innovit árið 2009 (þá Innovit), tók við sem framkvæmdastjóri 2011 og er einn af eigendum félagsins. Hann hefur frá þeim tíma leitt lykilverkefni félagsins þar á meðal frumkvöðlakeppnina Gulleggið, Seed Forum og StartupReykjavik.

Kristján er viðurkenndur umsjónaraðili Atvinnu- og nýsköpunarhelga á vegum „StartupWeekend” í Seattle en um þúsund slíkir viðburðir fara fram árlega. Þá hefur hann stýrt vinnusmiðjum um land allt, á Norðurlöndum og Íran og haldið fjölmörg erindi um heim allan sem tengjast frumkvöðlastarfi. Kristján hefur samhliða starfi sínu fyrir Klak Innovit kennt námskeið um þróun viðskiptahugmynda við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Bifröst og Kvikmyndaskóla Íslands. Kristján hefur lokið B.A. í stjórnamálafræði frá Háskóla Íslands ásamt M.Sc. í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá sama skóla.

Meniga er markaðsleiðandi í sölu og þróun heimilisfjármála- og snjallbankalausna fyrir banka og fjármálafyrirtæki í Evrópu. Heimilisfjármálausn Meniga var fyrst hleypt af stokkunum á Íslandi árið 2009 en hefur síðan þá verið keypt af hátt í 20 fjármálastofnunum í 16 löndum og nær nú til rúmlega 10 milljóna netbankanotenda.