*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Fólk 8. febrúar 2017 13:38

Kristján Freyr til Árnasona

Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður og trommari í Prins Pólo hefur störf hjá auglýsingastofunni Árnasonum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Kristján Freyr Halldórsson hefur verið ráðinn sem texta- og hugmyndasmiður hjá auglýsingastofunni Árnasonum við Aðalstræti.

Kristján Freyr starfaði áður hjá H:N Markaðssamskiptum en þar áður sem verslunarstjóri Máls og menningar við Laugaveg um árabil.

Trommari í ýmsum hljómsveitum

Kristján Freyr er meðal annars þekktur fyrir trommuleik sinn með hinum ýmsum hljómsveitum, þar á meðal með Prins Póló, Reykjavík!, Dr. Gunna og Geirfuglunum.

Hann er uppalinn Hnífsdælingur, með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Ísafirði og nam íslensku og ensku frá Háskóla Íslands.

Rokkstjóri rokkhátíðar alþýðunnar á Ísafirði

Hann hefur komið víða við á ferli sínum situr meðal annars í framkvæmdastjórn Aldrei fór ég suður, rokkhátíðar alþýðunnar á Ísafirði, er varamður í ráðum og nefndum á vegum Reykjavíkurborgar og sat einnig í framkvæmdastjórn Miðborgarinnar okkar.

Kristján er í dag starfandi rokkstjóri Aldrei fór ég suður hátíðarinnar sem haldin verður um miðjan apríl í ár.

Dagskrárgerðarmaður hjá RÚV

Kristján Freyr er dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu og var um tíma framkvæmdastjóri Kimi Records. Þá sat hann í bæjarstjórn Ísafjarðar 1996-1998 fyrir hönd Funklistans.

Kristján Freyr er giftur Bryndísi Stefánsdóttur kennara og eiga þau tvö börn.

Í sama húsi og Hönnunarmiðstöðin

„Kristján Freyr er auðvitað hæfileikabúnt sem er mjög góð viðbót við allt það hæfileikaríka fólk sem starfar hjá okkur,“ segir Árni Árnason, eigandi Árnasona.

„Við erum mjög glöð að hafa fengið hann til liðs við okkur og erum þess fullviss að hann sé happafengur fyrir okkur. Um leið er þessi ráðning mikilvægur hlekkur í því að halda áfram að veita viðskiptavinum okkar fyrsta flokks þjónustu á öllum stigum.“

Í fréttatilkynningu fá auglýsingastofunni segir að Árnasynir sé ein af yngri auglýsingastofum landsins.

„Stofan flutti sig nýverið í Geysis-húsið við Aðalstræti 2 sem er að verða nokkurs konar miðstöð hönnunar í miðborginni en Hönnunarmiðstöð Íslands er einnig til húsa þar,“ segir þar að auki.