Stjórn Kynnisferða ehf. og Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri félagsins, hafa komist að samkomulagi um að Kristján láti af störfum hjá félaginu. Kristján hefur leitt félagið undanfarin sex ár, á tímum mikils vaxtar í íslenskri ferðaþjónustu. Stjórn Kynnisferða þakkar Kristjáni fyrir störf hans í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar að því er segir í fréttatilkynningu félagsins

Björn Ragnarsson, rekstrarstjóri Hópbifreiða Kynnisferða, mun tímabundið taka við sem framkvæmdastjóri félagsins þar til nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Björn er viðskiptafræðingur að mennt en hann er fyrrum fjármálastjóri Bláa lónsins, framkvæmdastjóri bílaleigunnar ALP og framkvæmdastjóri bílasviðs Bílabúðar Benna.

„Á undanförnum árum hefur umfang rekstrar Kynnisferða aukist gríðarlega. Kristján hefur leitt félagið á þessum umbreytingatímum,“ segir Jón Benediktsson, stjórnarformaður Kynnisferða. „Stjórn Kynnisferða þakkar Kristjáni fyrir störf hans í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar.“

„Það hefur verið mér mikil ánægja að taka þátt í uppbyggingu og vexti Kynnisferða síðastliðin sex ár,“ segir Kristján Daníelsson, fráfarandi framkvæmdastjóri  „Ég vil þakka samstarfsmönnum fyrir góð kynni og farsælt samstarf, en ég mun nú snúa mér að nýjum verkefnum.“