*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 17. mars 2020 10:50

Kristján kaupir fyrir 4 milljónir í Brimi

Stjórnarformaður Brims kaupir en lítil viðskipti hafa verið í kauphöllinni í morgun. Icelandair hækkar þó á ný.

Ritstjórn
Miklar sveiflur hafa orðið á hlutabréfaverði í íslensku kauphöllinni síðustu daga, með miklum lækkunum, þar á meðal hjá Brim þar sem stjórnarformaðurinn, Kristján Þ. Davíðsson að neðan, hefur nú keypt í.

Stjórnarformaður Brims, Kristján Þ. Davíðsson, eigandi og framkvæmdastjóri félagsins Viðskiptaþróun ehf., og fyrrum framkvæmdastjóri skilanefndar Glitnis og Landsambands fiskeldisstöðva, hefur keypt 102 þúsund hluti í Brim.

Fékk hann bréfin á 38,7 krónur, svo kaupverðið er í heildina rétt undir 4 milljónum króna, en gengi bréfanna samkvæmt Keldunni eftir engin viðskipti er 41 króna. Miðað við það verð er heildarverðmæti bréfanna tæplega 4,2 milljónir króna.

Það sem af er morgni hafa lítil viðskipti verið í kauphöllinni, eftir miklar lækkanir í gær, en eins og Viðskiptablaðið sagði þá frá hafði verð Icelandair ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2011.

Öfugt við önnur bréf í kauphöllinni í morgun hefur gengi bréfa Icelandair þó hækkað á ný, eða um 6,67%, upp í 3,68 krónur, þegar þetta er skrifað, en einungis í 4 milljóna viðskiptum. Úrvalsvísitalan hefur hins vegar lækkað áfram, eða um 0,14%, niður í 1.629,01 stig.

Icelandic Seafood hefur lækka mest eða um 8,30%, niður í 6,85 krónur, í 11 miljlóna króna viðskiptum. Festi hefur lækkað næst mest, eða um 4,62%, í einungis 250 þúsund króna viðskiptum og fór verðið niður í 99,20 krónur.