Hlutabréf í Hval hf. voru auglýst til sölu í Morgunblaðinu á laugardaginn. Seljandi bréfanna gefur ekki upp nafn sitt eða aðrar persónuupplýsingar. Ekki er heldur gefið upp um hve stóran hlut í félaginu er að ræða. Aðeins er sagt að hlutabréfin séu til sölu að hluta eða öllu leyti.

Kristján Loftsson framkvæmdastjóri Hvals og einn eigandi Fiskveiðahlutafélagsins Venusar sem á tæp 40% í félaginu segist ekkert kannast við hver eða hverjir eru að selja. Aðspurður hvort félaginu hafi verið boðið að kaupa bréfin í félaginu áður en þau voru auglýst segist Kristján ekki kannast við það. Stundum séu hlutabréf í óskráðum félögum auglýst til sölu og hingað til hafa menn getað losað sig við hlutabréf í Hval hf. Það eigi stundum við þegar selja þurfi eignir úr dánarbúum sem dæmi.

Rekstrarár Hvals hf. lýkur í lok september hvert ár. Í ársreikningi sem nær til september 2008 kemur fram að hluthafar í félaginu séu 96 en hafi verið 104 árið áður. Þá nam tap á rekstrinum rúmlega 2,8 milljörðum króna. Um 840 milljónir króna höfðu verið notaðar til kaupa á eigin bréfum.

Kristján segir að félagið hafi forkaupsrétt á hlutum í félaginu. Vilji einhverj selja hlut sinn ber honum að bjóða stjórn félagsins að ganga inn í tilboð, sé það uppi á borðum.