*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 11. október 2012 09:27

Kristján Markús: Tími excel ríkidæmis er liðinn

Aðalgreinir hjá Greiningu Íslands segir hlutabréfamarkaðinn taka hægt og rólega við sér. Fjárfestar stíga þó varlega til jarðar.

Gísli Freyr Valdórsson
Gísli Freyr Valdórsson

Gera má ráð fyrir að um 150 milljarðar króna renni í hlutabréfakaup á næstu árum og þá í þau fyrirtæki sem nú eru skráð á markað.

Þetta sagði Kristján Markús Bragason, aðalgreinir hjá Greiningu Íslandsbanka, á fundi Viðskiptaráðs, Deloitte og Kauphallarinnar um virkan verðbréfamarkað sem nú stendur yfir í Turninum í Kópavogi. 

Kristján Markús fjallaði ítarlega um stöðu hlutabréfamarkaðarins hér á landi. Hann sagði að hægt og rólega væri að lifna yfir hlutabréfamarkaði á Íslandi en að góðir hlutir gerðust þó hægt. Hingað til hefði skuldabréfamarkaðurinn verið nær allsráðandi og þar hefðu skuldabréf gefin út af hinum opinbera vegið hvað þyngst.

Kristján Markús sagði að meira væri horft í baksýnisspegilinn en áður og að fortíðin yrði látin speglast mikið inn í framtíðina. Í því samhengi sagði hann að sá tími væri liðinn að menn yrðu „ríkir í excel“ eins og hann orðaði það. Þá sagði hann að fjárfestar myndu stíga varlega til jarðar og markaðurinn væri enn að vinna sér inn traust. Þannig gætu fyrirtæki með slæma fortíð átt erfitt uppdráttar á markaði jafnvel þó þau ættu hugsanlega bjarta framtíð fyrir sér.