Úrslit liggja fyrir í prófkjöri Samfylkingarinnar Í Norðausturkjördæmi en 834 tóku þátt.

Kristján L. Möller, fv. ráðherra, leiðir sem fyrr lista Samfylkingarinnar en hann fékk nokkuð örugga kosningu í fyrsta sæti listans. Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa og fv. fréttakona hjá RÚV, kemur ný inn á lista og lenti í öðru sæti prófkjörsins.

Erna skákar þannig þingmönnunum Jónínu Rós Guðmdundsdóttur, sem lendir í þriðja sæti prófkjörsins, og Sigmundi Erni Rúnarssyni sem fellur niður í fjórða sæti. Sigmundur Ernir var í öðru sæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar árið 2009.

Jónína Rós sagði í viðtali við RÚV að þetta væru ákveðin vonbrigði en hún sótti einnig eftir 2. sæti. Sigmunur Ernir sóttist eftir 1.-4. sæti en endaði í 4. sæti.

Nær öruggt má telja að Sigmundur Ernir detti af þingi í haust og miðað við úrslitin í dag stendur þingsæti Jónínu Rósar mjög tæpt því Samfylkingin, sem hefur þrjá þingmenn í kjördæminu í dag, hefur verið að mælast með tvo þingmenn í kjördæminu síðustu mánuði.

Niðurstaða prófkjörsins í dag var eftirfarandi:

1. Kristján L. Möller 609 atkvæði í 1. sæti
2. Erna Indriðadóttir 311 atkvæði í 1.-2. sæti
3. Jónína Rós Guðmundsóttir 403 atkvæði í 1.-3.sæti
4. Sigmundur Ernir Rúnarsson 471 atkvæði i í 1.-4. sæti
5. Helena Þuríður Karlsdóttir 517 atkvæði í 1.-5. sæti
6. Örlygur Hnefill Jónsson  561 atkvæði í 1.-6.sæti