Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri eTactica ehf., en Kristján hefur verið tæknistjóri félagsins frá 2015.

Á undanförnum árum hefur verið ráðist í umfangsmiklar skipulagsbreytingar á tæknisviði, og mikil framþróun náðst í tækni félagsins, en eTactica selur vörur á sviði orkustýringar.

Þá hefur eTactica undanfarið aukið samstarf sitt við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Activity Stream, sem hefur þróað sérstaka útgáfu af hugbúnaði sínum fyrir vélbúnað eTactica. Hefur stjórn eTactica og Eggert Benedikt Guðmundsson nú komist að samkomulagi um að Eggert Benedikt láti af störfum sem forstjóri eTactica.

Kristján Guðmundsson er með doktorsgráðu í reiknilegri straumfræði frá tækniháskólanum í Kaliforníu (CalTech). Kristján hefur unnið á ýmsum sviðum eftir að námsferlinum lauk, m.a. við þróun vatnshreinsibúnaðar hjá sprotafyrirtæki í Hollandi, og sem söluráðgjafi hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Quintiq.

Eggert Benedikt segir í tilkynningu ákveðin tímamót að verða í rekstri félagsins og því hentugur tímapunktur til að stíga til hliðar: „Á þeim tveimur árum sem ég hef stýrt eTactica höfum við ráðist í mikilvægar breytingar á rekstri félagsins.  Við erum annars vegar tilbúin með nýja og heilsteypta kynslóð vélbúnaðar, sem félagið mun selja í heildsölu.  Hins vegar er hugbúnaður Activity Stream tilbúinn til sölu og gefur samvinna þessara tveggja þátta félaginu ný og öflug tækifæri til vaxtar.”

„Markaðsstaða eTactica er sterkari en hún hefur verið nokkurn tímann áður”, er einnig haft eftir Kristjáni Guðmundssyni, nýjum forstjóra í tilkynningunni. “Helgast það af styrk nýrrar vörulínu félagsins, sem hefur fengið góðar viðtökur. Einnig sjáum við mikla möguleika í samstarfi okkar við Activity Stream. Því er nú mikið sóknarfæri, og er ég fullur tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni ásamt okkar afburða starfsfólki”.

Aðaláherslur í frekari uppbyggingu eTactica eru á sölu- og markaðsstarf félagsins.