Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, er nú orðinn stjórnarformaður HB Granda en hann er jafnframt stærsti eigandi félagsins.

Kristján tekur við stjórnarformennsku af Árna Vilhjálmssyni, sem lést í byrjun mars. Árið 1988 stóð Árni fyrir kaupum fjögurra fyrirtækja á Granda hf. af Reykjavíkurborg. Um þetta leyti áraði illa í sjávarútvegi og hafði rekstur félagsins ekki gengið sem skyldi. Við eigendaskiptin tók Árni að sér stjórnarformennsku í Granda hf. og sinnti henni þar til yfir lauk.

Aðeins fjórir aðilar skipa stjórn HB Granda eins og er. Kristján er sem fyrr stjórnarformaður. Þeir Halldór Teitsson og Jóhann Hjartarson sitja áfram í stjórn. Loks hefur Hanna Ásgeirsdóttir, sem áður sat í varastjórn, tekið sæti í stjórninni eftir að Iða Brá Benediktsdóttir, forstöðumaður einkabankaþjónustu Arion banka, vék úr stjórn um síðustu áramót.

Kristján Loftsson á sem fyrr segir stærstan hluta í HB Granda eða 40,3%. Hlutinn á hann í gegnum félag sitt, Vogun ehf. Þá á Arion banki 33,2% hlut í félaginu, en sá hlutur var sem kunnugt er áður í hluta Kjalar, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar. Þá á Hampiðjan 9,4% hlut í félaginu.