*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Fólk 4. febrúar 2020 13:46

Kristján tekur við stjórninni af Ingva

Kristján Hjálmarsson ráðinn framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta. Ingvi Jökull tekur sæti sem stjórnarformaður.

Ritstjórn
Kristján Hjálmarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta.
Aðsend mynd

Kristján Hjálmarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar H:N Markaðssamskipta.

Kristján hefur gegnt starfi viðskipta- og almannatengslastjóra H:N Markaðssamskipta frá árinu 2014. Áður starfaði hann um fjórtán ára skeið hjá 365 miðlum, þar af sjö ár sem fréttastjóri á Fréttablaðinu og eitt ár sem fréttastjóri Vísis. Þá var hann yfirmaður innblaðs- og helgarblaðs Fréttablaðsins.

Kristján er með BA-próf í stjórnmála- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Jönköping. Eiginkona hans er Vera Einarsdóttir og eiga þau þrjú börn. Ingvi Jökull Logason, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra H:N frá árinu 2007, færir sig um set innan stofunnar og verður yfirráðgjafi og stjórnarformaður hennar.

Hann er jafnframt eigandi H:N, sem er ein af elstu auglýsingastofum landsins og fagnar þrjátíu ára afmæli í ár. Hjá H:N starfa ríflega 20 manns við alhliða markaðssamskipti, allt frá birtingum til hönnunar og almannatengslum til stafrænnar miðlunar. H:N rekur jafnframt starfsstöð í Brighton á Englandi.

Meðal helstu viðskiptavina H:N má nefna Samkaup, Kviku banka, Auði, Happdrætti Háskóla Íslands, SÍBS, Atlantsolíu, Innnes, leigufélagið Ölmu, Bláa lónið, Póstinn, Nox Medical, Opin kerfi og 1238 sýndarveruleikasetur í Skagafirði. Stofan fékk Lúðurinn fyrir árangursríkustu auglýsingaherferðina á síðustu ÍMARK-hátíð en það var í sjöunda sinn sem stofan hlýtur verðlaunin í þau ellefu skipti sem þau hafa verið veitt.

„Eftir 13 ára setu sem framkvæmdastjóri H:N hefur stofan aldrei staðið sterkari og kominn tími til að afhenda öðrum framkvæmdastjórakeflið,“ segir Ingvi Jökull sem hefur starfað á H:N Markaðssamskiptum í um 25 ár.

„Auglýsingamarkaðurinn er í stöðugri þróun og verkefni H:N verða stærri og fjölbreyttari með hverju árinu sem líður, meðal annars með þeirri öru tækniþróun sem er að eiga sér stað. Nú mun ég einbeita mér að ráðgjöf, framtíðar tekjumöguleikum stofunnar innanlands og erlendis og nýjum miðlum sem við höfum verið fyrst auglýsingastofa hér á landi til að vinna með, þar á meðal sýndarveruleika (e. virtual reality) og viðbættan veruleika (e. augmented reality).“

Kristján segir spennandi tíma framundan hjá H:N Markaðssamskiptum.

„Það verður gaman að leiða þennan frábæra hóp starfsmanna sem hér vinnur og takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru. Framkvæmdastjórastarfið leggst vel í mig og fer vel með þeim verkefnum sem ég hef verið að vinna að hjá H:N.“