*

fimmtudagur, 9. apríl 2020
Innlent 22. janúar 2020 14:54

Kristján Þór: „Ég hef ekkert að fela“

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að hvorki hann né ráðuneytið hafi neitt að fela í tengslum við Samherjamálið.

Ritstjórn
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann Kristján Þór Júlíusson, segir að hvorki hann né ráðuneytið hafi neitt að fela í tengslum við Samherjamálið. Kristján Þór mætti í morgun á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en nefndin vinnur að frumkvæðisathugun á hæfi ráðherra í ljósi tengsla hans við Samherja. Formaður nefndarinnar, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, telur að enn sé mörgum spurningum ósvarað varðandi hæfi ráðherra. Vísir greinir frá þessu.

Kristján ítrekaði á fundinum að hann hafi engra hagsmuna að gæta gagnvart Samherja, en á fundinum var hann mikið spurður út í hæfisreglu stjórnsýsluréttarins.

„Það er alveg ljóst að í hæfisreglum stjórnsýslunnar eru þónokkuð af matskenndum hlutum sem varðar hæfi og það getur vel verið að það eigi eftir og þurfi að skýra þær eftir því sem að tíminn líður og menn fá fordæmi og reynslu af stjórnsýsluathöfnum sem kunna að leiða til þess að einhver svona matskennd ákvæði verði skýrð frekar en raun ber vitni í dag,“ sagði Kristján Þór í samtali við Vísi, er hann var spurður um hvort hann telji gildandi reglur nógu skýrar. Hann tekur þó fram að aftur á móti sé hann ekki best til þess fallinn að svara því, en hann reyni eftir bestu getu að framfylgja gildandi reglum.