Heilbrigðisráðherra hefur á yfirstandandi kjörtímabili, frá maí 2013 til loka maí 2015, farið í fimm ferðir til útlanda í embættiserindum og er kostn­aður við ferðalög ráðherra samtals 1.218.881 kr. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur um utanlandsferðir hans.

Katrín spurði hversu margar utanlandsferðir ráðherra hefði farið það sem af væri kjörtímabilinu, og óskaði eftir upplýsingum um tilefni, lengd og kostnað hverrar ferðar ásamt fjölda í fylgdarliði.

Á árinu 2013 fór Kristján Þór í eina fjögurra daga ferð til Stokkhólms á fund norrænna ráðherra og nam kostnaður ferðarinnar 294.939 krónum.

Kristján Þór fór í þrjár ferðir á árinu 2014 í samtals 10 daga. Nam heildarkostnaður ferðanna 619.608 krónum. Á þessu ári fór hann svo í þriggja daga ferð á ársfund Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Genf og nam kostnaðurinn þá 304.334 krónum.

Í öllum tilvikum var fylgdarlið ráðherrans með í för og nam heildarkostnaður þess í öllum ferðum 2.856.763 krónum.

Svar ráðherrans má lesa í heild sinni hér .