Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var rétt í þessu kjörinn 2. varaformaður flokksins. Hann háði baráttu við Geir Jón Þórisson, fyrrv. yfirlögregluþjón, í annarri umferð.

292 greiddu atkvæði í seinni umferð kosninga. Kristján Þór hlaut 167 atkvæði eða 57% atkvæða, en Geir Jón 117 atkvæði eða 40%. 3% skiluðu auðu.

Þetta er í fyrsta sinn sem 2. varaformaður er kjörinn en kosið er eftir nýjum skipulagsreglum flokksins sem samþykktar voru á landsfundi flokksins í nóvember sl.

Fjórir einstaklingar höfðu gefið kost á sér í embættið; Jens Garðar Helgason, forseti bæjarstjórnar í Fjarðarbyggð, Geir Jón, Kristján Þór og Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði. Enginn þeirra náði yfir 50% fylgi í fyrstu umferð og var því kosið milli tveggja efstu.

306 greiddu atkvæði í fyrri umferð. Aldís hlaut 42 atkvæði, Geir Jón hlaut 67 atkvæði, Jens Garðar hlaut 63 atkvæði en Kristján Þór 132 atkvæði. Því var kosið á milli þeirra Geir Jóns og Kristjáns Þórs.