Engar heimildir eru í fjárlögum um byggingu nýs Landspítala og munu framkvæmdir við byggingu hans ekki hefjast á þessu ári eins og stefnt var að. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í sérstökum umræðutíma um nýjan Landspítala á Alþingi í dag málið í þeirri stöðu sem fyrrverandi ríkisstjórn markaði því. Forval stendur nú yfir vegna útboðs og hönnunar á spítalanum og stendur frestur til að skila inn umsóknum 18. júlí næstkomandi og bætist við það frestur til að vinna úr þeim. Þegar því lýkur er óvíst hvað tekur við en engar fjárheimildir til að vinna málið áfram.

„Það er ekki hægt að sjá fyrir sér að verkinu vindi fram,“ sagði Kristján en tók fram að ekki hafi verið ákveðið að hætta við forvalið.

Þá gerði Kristján hallarekstur í heilbrigðiskerfinu að umtalsefni.

„Við erum í bullandi vandræðum með að reka núverandi heilbrigðiskerfi. Þetta snýst um það fólk sem vinnur í kerfinu. Fyrr en við erum komin með þétt tak á þessu félagslega neti þá fyrst þegar það er fengið tel ég að við getum farið að hugsa alvarlega um steypu. Ég óska þess heitast að þingmenn komi íslenska heilbrigðiskerfinu á fæturnar aftur og gefi okkur færi á því að reisa heilbrigðiskostinn úr þeim rústum sem hann er í dag,“ sagði Kristján.