Kristján V. Vilhelmsson, útgerðarmaður og einn eigenda Samherja, er ásamt eiginkonu sinni, Kolbrúnu Ingólfsdóttur, efstur á lista Viðskiptablaðsins yfir auðuga Íslendinga. Hrein eign Kristjáns og Kolbrúnar, það eru eignir umfram skuldir, nema samtals ríflega 6,8 milljörðum króna. Þetta má sjá í álagningarskrám ríkisskattstjóra sem birtar voru í dag.

Kristján var annar á lista Ríkisskattstjóra yfir þá sem greiddu hæstu skattana í ár. Alls greiddi hann rúmlega 152 milljónir í skatta vegna ársins 2012. Þar af greiddi hann um 69 milljónir í auðlegðarskatt og kona hans greiddi sömu fjárhæð.

Skúli Mogensen kaupir Iceland Express
Skúli Mogensen kaupir Iceland Express
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Annar á listanum er Skúli Mogensen, fjárfestir og eigandi flugfélagsins Wow Air. Skúli og Margrét Ásgeirsdóttir, fyrrverandi eiginkona hans, áttu samtals um 5.464 milljónir króna um síðustu áramót, samkvæmt greiddum auðlegðarskatti. Skúli og Margrét voru efst á lista Viðskiptablaðsins á síðasta ári. Þá nam hrein eign þeirra um 7,5 milljörðum króna, samkvæmt álagningarskrám. Greiddur auðlegðarskattur vegna síðasta árs nemur yfir 106 milljónum króna hjá Skúla og Margréti.

Vatnsendabóndinn Þorsteinn Hjaltested.
Vatnsendabóndinn Þorsteinn Hjaltested.
Þriðji á listanum er Þorsteinn Hjaltested og eiginkona hans Kaire Hjaltested. Hrein eign þeirra hjóna nemur tæpum 3,5 milljörðum, ef marka má álagningarskrár. Viðskiptablaðið hefur að undanförnu fjallað um dómsmál er tengjast Þorsteini og Vatnsendalandi. Þorsteinn fékk árið 2007 ríflega 2,2 milljarða greidda frá Kópavogsbæ vegna eignarnáms í Vatnsendalandi. Fyrr á þessu ári komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Þorsteinn hafi ekki verið eigandi Vatnsendajarðar, heldur tilheyri beinn eignarréttur að landinu dánarbúi Sigurðar Hjaltested, afa Þorsteins.

Eins og fyrr greinir birti Ríkisskattstjóri álagningarskrár í dag. Þriðja árið í röð tekur Viðskiptablaðið saman lista yfir þá sem greiða auðlegðarskatt og reiknar út hreina eign auðlegðarskattgreiðenda. Greiðendur skattsins eru þeir einstaklingar sem eiga meira en 75 milljónir umfram skuldir og hjón sem eiga 100 milljónir umfram skuldir. Samantekt Viðskiptablaðsins er ekki tæmandi, litið var til á þriðja hundrað einstaklinga en alls greiddu nærri 6.000 Íslendingar auðlegðarskatt vegna ársins 2012.

Í útreikningum Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til viðbótarauðlegðarskatts.