Fréttamiðillinn 24.is hefur hafið göngu sína með Kristjón Kormák Guðjónsson sem ritstjóra og Tómas Valgeirsson sem frétta- og tæknistjóra. Miðillinn er alfarið í eigu starfsmanna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Auk þeirra Kristjóns og Tómasar eru stofnendur Sunna Rós Víðisdóttir, sem einnig er stjórnarformaður, og Guðbjarni Traustason sem verður framkvæmdastjóri.

Lögð verður áhersla á dýpt og gæði í efnisvali, að því er fram kemur, en miðillinn verður fyrst um sinn aðeins vefmiðill, og mun birta efni daglega. Síðar í vetur er svo stefnt að mánaðarlegri prentútgáfu, auk þess sem innan tíðar verða gefin út hlaðvörp í hljóði og mynd. Þegar hafa tveir blaðamenn verið ráðnir, og til stendur að ráða tvo þeim til viðbótar á næstunni.

„Fjölmiðillinn býður lesendum uppá  öfluga rannsóknarblaðamennsku, beittar greinar, áhugaverð viðtöl, umfjöllun um stjórnmál, menningu og heilsu,“ er haft eftir Kristjóni. „Á 24.is verðum við gagnrýnin og beitt en leggjum líka áherslu á hið jákvæða og mannlega um allt land. Svo verðum rödd þeirra sem eru of brotnir til að tala eða misstu trúna á réttlæti og sanngirni,“

Meðal fyrri starfa Kristjóns eru ritstjórn Pressunnar, DV, Hringbraut og Fréttablaðsins.is, en hann starfaði síðast fyrir WikiLeaks. Tómas hefur komið að Kvikmyndir.is síðan 2004 og hefur starfað sem hönnuður, umbrotsmaður, dagskrárgerðarmaður og blaðamaður.

Sunna er með gráðu í þjóða- og Evrópurétti og er að klára ML nám frá HR. Hún hefur starfað sem starfsnemi í Utanríkisráðuneytinu, persónuverndarráðgjafi og aðstoðarmaður þingflokks Pírata, og var varaþingmaður sama flokks á síðasta ári.

Guðbjarni hefur stýrt söludeildum á DV, Fréttatímanum, Fréttablaðinu, Hringbraut og Arion banka.