*

mánudagur, 8. mars 2021
Fólk 23. janúar 2021 18:01

Kristrún hættir hjá Kviku

Kristrún Frostadóttir lætur af störfum hjá Kviku og vonast eftir sæti á Alþingi fyrir Samfylkinguna.

Ritstjórn
Kristrún Mjöll Frostadóttir virðist ætla að yfirgefa fjármálaheiminn fyrir stjórnmálin.
Haraldur Guðjónsson

Kristrún Mjöll Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, lætur af störfum á næstunni samkvæmt frétt mbl, hvar vísað er í tilkynningu frá Marinó Erni Tryggvasyni bankastjóra Kviku til starfsmanna bankans.

Eins og sagt var frá fyrir jól sækist Kristrún eftir sæti á lista Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum nú í haust, og má gera ráð fyrir að starfslokin tengist því. Ekki verður haldið bindandi prófkjör, heldur ráðgefandi skoðanakönnun meðal flokksmanna, sem uppstillingarnefnd hefur síðan til hliðsjónar við uppröðun listans.

Kristrún hóf störf hjá Kviku í janúar 2018, en þar áður starfaði hún sem hagfræðingur Viðskiptaráðs, sérfræðingur hjá bandaríska fjárfestingabankanum Morgan Stanley, hagfræðingur í greiningardeild Arion banka, og blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Kristrún er með meistaragráðu í alþjóðafræðum með áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál frá Yale-háskóla, og meistaragráðu í hagfræði frá Boston-háskóla, auk BS-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Stikkorð: Kristrún Frostadóttir