Hægt er að byggja upp samkeppnishæfa kræklingarækt á Íslandi en slíkt hefur verið gert í Kanada og gefið góða raun. Þetta er niðurstaða nefndar sjávarútvegsráðherra um stöðu og möguleika kræklingaræktar á Íslandi. Í skýrslu nefndarinnar er lagt til að stjórnvöld stuðli að vexti og viðgangi greinarinnar með styrkingu og samþættingu innviða og rannsókna. Aukin þjónusta opinberra aðila við greinina er einnig áformuð. Hugmyndin er að byggja á magni, tæknivæðingu og gæðum. Gæði íslensk kræklings þykja mikil og hér er mikið rými til ræktunar að því er fram kemur í skýrslunni. Ræktunarsvæðin eru sögð ómenguð og heilnæm. Sjónum verður aðallega beint að Evrópumarkaði en eftirspurn eftir kræklingi fer vaxandi í álfunni og nemur heildarneysla 700.000 tonnum á ári.

Í skýrslunni segir að verð á kræklingi fari hækkandi og muni að öllum líkindum haldast hátt samfara minnkandi framleiðslu í Evrópu. Evrópuríki anna ekki eftirspurn og hefur innflutningur aukist á undanförnum árum. Markaðsverð fer þó eftir löndum og gæðum afurðar.

Í skýrslunni er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið aðstoði við að kanna hagkvæmni mismunandi flutningsleiða fyrir ferskan krækling frá Íslandi á Evrópumarkað. Talið er að kræklingarækt og þjónustuuppbygging henni tengd geti styrkt atvinnuhorfur á landsbyggðinni. Kræklingarækt fellur einnig vel að annarri vinnslu og markaðssetningu sjávarfangs.