Verkfræðistofan Efla hefur gert samstarfssamning við rafveitufyrirtækið HEP-ESCO um ráðgjöf á sviði jarðhitanýtingar í Króatíu. Verkefnið felur í sér nýtingu gamallar tilraunaholu, sem gefur af sér 1,5MWth af heitu vatni, til hitunar á skólahúsnæði í borginni Kr?evci.

Verkefnið var kynnt á ráðstefnunni Nordic Days sem nú fer fram í Zagreb og hafa fjölmiðlar í Króatíu sýnt málinu mikinn áhuga segir í tilkynningu.

Þar er haft eftir Hafsteini Helgasyni, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Eflu, að miklir  möguleikar í nýtingu á jarðhita séu fyrir hendi í Króatíu. Víða um landið hafi verið boraðar holur í leit að olíu eða gasi og þeim síðan verið lokað þegar þær gáfu af sér heitt vatn, þar sem ekki hafi verið þekking til að nýta það.

Hafa fulltrúar Eflu síðustu tvo daga fundað með fleiri aðilum í Króatíu varðandi frekari ráðgjafarverkefni á sviði jarðhitanýtingar.

Nordic Days eru nú haldnir í Zagreb í 6. sinn undir yfirskriftinni Umhverfisvæn tækni. Ráðstefnan er samstarfsverkefni viðskiptaskrifstofa norrænu sendiráðanna í Zagreb en umsjón með þátttöku Eflu í ráðstefnunni hefur Útflutningsráð Íslands.