Króatía er auðfús til að taka upp reglugerðir Evrópusambandsins um fiskveiðar, en væntir stuðnings til að viðhalda sjávarauðlindum landsins, segir Ivan Katavic, sem sér um samningaviðræður um fiskveiðar við Evrópusambandið, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Ein af helstu ástæðum fyrir því að Ísland hefur ekki leitast við að ganga í Evrópusambandið eru íþyngjandi reglugerðir sem geta skert sjávarútveg þjóðarinnar og haft neikvæð áhrif á stjórnun auðlindarinnar.

Aðildarviðræður Króatíu hófust fyrir ári síðan og standa vonir til að þjóðin fái inngöngu árið 2010. Króatar vænta þess að opnar viðræður um sjávarauðlindir landsins hefjist bráðlega, en það er talið aðkallandi efni þar sem þjóðin mun þurfa lengri tíma og fjármagn til að aðlagast stöðlum Evrópusambandsins.

Katavic segir að skipafloti Króatíu sé úreltur og illa útbúinn, í Króatíu sé engin nútímavædd geymsluaðstaða, né heildsölumarkaðir með fiskafurðir. Hann segir að það sem Króatía hafi að bjóða við inngöngu í sambandið sé öflugir fiskstofnar, sem sé vel stýrt og viðhaldið. Hann segir að sjávarauðlindir Króatíu innihaldi yfir 150 fisktegundir sem selja megi á neytendamarkaði og að þjóðin vilji viðhalda stofnunum.

Katavic segir að Króatía vilji gjarnar taka upp reglugerðir Evrópusambandsins um fiskveiðar, en að þjóðin vilji jafnframt varðveita fiskstofna sína og halda í hefðir þjóðarinnar við veiðar. Hann segir að þjóðin standi samkeppnisaðilum í Miðjarðarhafinu langt að baki og muni þurfa fjárveitingu til að bæta iðnaðinn, en Króatar vænta þess að mikið af þeim fjármunum muni koma úr sérstökum sjóði sem rennur til kostnaðar við inngöngu í sambandið. Króatía hefur takmarkað veiðar talsvert, en lélegur skipafloti er einnig talin ástæða þess að sjávarauðlindir Króatíu eru eins ríkar og raun ber vitni, segir í fréttinni.

Aðilar innan fiskiðnaðar Króatíu hafa lýst yfir áhyggjum vegna inngöngu landsins í samband mun ríkari þjóða og hafa hvatt ríkisstjórnina til að setja á verndarsvæði sem muni auka fiskveiðilögsögu þjóðarinnar, vafalaust til lítillar ánægju nágrannaþjóða í Adríahafinu; Slóveníu og Ítalíu. Katavic segir hægt sé að réttlæta slíkt verndarsvæði út frá efnahagslegum forsendum, þar sem fiskauðlindir þjóðarinnar gætu klárast ef ekki verði gerðar ráðstafanir gegn ofveiðum. Hann segir jafnframt að þjóðin vilji forðast að aðildarviðræðurnar taki neikvæða stefnu.

Króatía mun sækjast eftir aðlögunartímabili áður en reglugerðir Evrópusambandsins taka fullt gildi, segir Katavic. Einnig mun þjóðin sækjast eftir fiskveiðistjórn sem sjái til þess að fiskveiðar í Adríahafinu verði sjálfbærar. Katavic segist vonast til að Evrópusambandið sjái nauðsyn þess að koma til móts við þessar óskir, sem muni sjá til þess að fiskiðnaði þjóðarinnar verði viðhaldið.