Stjórnvöld í Króatíu hafa ekki áhuga á að selja eignarhlut sinn í samheitalyfjafyrirtækinu Pliva, segir í fréttatilkynningu. Actavis hefur gert óformlegt kauptilboð í Pliva að virði 110 milljarðar íslenskra króna.

Króatíska ríkið og opinberar stofnanir eiga um 18% hlut í Pliva, sem er skráð í kauphallirnar í Zagreb og London. Pliva hefur sagt að fyrirtækið hafi ekki áhuga á að selja og telur kauptilboð Actavis of lágt.

Róbert Wessmann, forstjóri Actavis, sagði á föstudaginn að það kæmi til greina að hækka tilboðið í kjölfar áreiðanleikakönnunar. Gengi hlutabréfa Pliva hækkaði um rúmlega 9% á föstudaginn í síðustu viku þegar fréttir af kauptilboðinu bárust. Gengi bréfa félagsins, sem skráð eru í kauphöllina í Zagreb, hefur hækkað um tæp 8% það sem af er degi.

Pliva er stærsta lyfjafyrirtæki Austur-Evrópu og er með starfsemi í 30 löndum, meðal annars í Króatíu, Póllandi, Rússlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Spáni, Bretlandi og Ítalíu.

Actavis er sjötta stærsta lyfjafyrirtæki heims, eftir nýlegar yfirtökur í Bandaríkjunum. Félagið keypti samheitalyfjafyrirtækið Amide fyrir 500 milljónir Bandaríkjadali og samheitalyfjaeiningu Alpharma fyrir 810 milljónir Bandaríkjadali í fyrra.