Króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva hefur selt eina af lyfjaverksmiðjum sínum í Þýskalandi til ítalska lyfjafyrirtækisins Menarini. Fyrirtækið greindi frá sölunni nýverið en gaf ekki upp söluverðið.

Íslenska samheitalyfjafyrirtækið Actavis á í yfirtökuviðræðum við Pliva og hækkaði í síðasta mánuði óformlegt kauptilboð sitt í 1,85 milljarða Bandaríkjadala (133 milljarðar íslenskra króna) úr 1,6 milljörðum dala.

Pliva hafnaði fyrra tilboði Actavis á þeim forsendum að það hafi ekki endurspeglað raunvirði félagsins og hefur félagið nú verið sett í formlegt söluferli. Talið er að nokkrir fjárfestingasjóðir hafi einnig áhuga á að kaupa Pliva.

Pliva segir söluna á verksmiðjunni í Þýskalandi ekki hafa nein áhrif á afkomu félagsins á þessu ári og að unnið sé að því að færa framleiðsluna til landa þar sem framleiðslukostnaður er lægri. Fyrirtækið áætlar að ljúka þeim breytingum fyrir lok árs 2008.

Króatíska fyrirtækið ákvað síðasta vor að einbeita sér alfarið að samheitalyfjaframleiðslu og hefur selt frá sér frumheitalyfjaframleiðslu sína. Ef kaup Actavis á Pliva ganga eftir mun sameinað félag verða eitt af fjórum strærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims.

Actavis hefur vaxið ört með yfirtökum og keypti á síðasta ári lyfjafyrirtækið Amide fyrir 500 milljónir Bandaríkjadala og samheitalyfjaeiningu bandaríska lyfjafyrirtækisins Alpharma fyrir 810 milljónir dala.