*

miðvikudagur, 21. ágúst 2019
Innlent 22. september 2017 12:12

Kröflulína 4 tekin í notkun

Rafmagni var hleypt á Kröflulínu 4 frá Þeystareykjarvirkjun í fyrsta sinn í dag til prófana.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í dag var í fyrsta rafmagni hleypt á Kröflulínu 4, en það þýðir að hægt verður að hefja prófanir á Þeystareykjavirkjun og raforkuframleiðslu þar. Er um að ræða aðra af tveimur 220 kílóvatta háspennulínum sem byggðar eru til að flytja rafmagn frá virkjuninni, en framkvæmdir við hana hófust um mitt ár 2016 að því er RÚV greinir frá.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að alltaf megi búast við því í flóknum verkefnum að eitthvað þurfi að laga eftir spennusetningu, þó það verði ekkert verulegt.

„Það hefur mjög mikla þýðingu fyrir heildarverkefnið, við uppbygginguna á Bakka og Þeistareykjavirkjun, að hún sé tilbúin núna,“ segir Guðmundur Ingi. „Nú getur Landsvirkjun hafist handa við að prófa Þeistareykjavikjun þannig að þeir geti staðið við sínar áætlanir gagnvart viðskiptavinum sínum niðri á Bakka.“

Meðan á framkvæmd og undirbúningi línunnar stóð voru fjöldi kærumála og lögbannskröfur settar á þær, en þó öll kærumálin hafi verið til lykta leidd er enn krafa uppi um að Leirhnjúkshraun þar sem virkjunin liggur verði friðlýst.

„Friðlýsingar hafa alltaf ákveðna skilmála í för með sér,“ segir Guðmundur Ingi spurður hvort þyrfti að færa hana ef hraunið yrði friðlýst. „Það eru fordæmi fyrir því að orkumannvirki séu innan friðlýstra svæða. Ég get í rauninni ekki svarað því á þessari stundu.“

Guðmundur Ingi segir þrátt fyrir allt verði kostnaður við verkið líklega lægri en áætlað var. „Við stöndum hérna í dag og stöndum nokkurnveginn áætlun sem er afskaplega mikið gleðiefni fyrir okkur.“