„Ferðaþjónustan er að vakna á ný eftir tvö erfið ár. Ísland er í góðri stöðu að ná fyrri styrk aftur og við erum að ná endurheimt hraðar en við bjuggumst við fyrir nokkrum mánuðum," segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia.

Hann bætir við að sætaframboðið í sumar hafi aukist frá árinu 2019. „Ef við miðum við að sumarvertíðin sé frá apríl til október er 3,1% aukning sætaframboðs á milli áranna 2019 og 2022. Ef við horfum til júní til ágúst er um að ræða 0,5% aukningu á milli ára."

Grétar segir ólíklegt að það náist sami farþegafjöldi nú í sumar og var á sama tímabili fyrir faraldur. „Við höfum ekki náð sömu sætanýtingu og var fyrir faraldur. Samkvæmt meðaltalsgögnum fyrir nýliðinn aprílmánuð var einungis um 76% sætanýting, samanborið við 83% nýtingu í maí 2019 og 85-88% nýtingu sumarið 2019." Hann segist ekki gera ráð fyrir því að sætanýtingin sem var fyrir faraldur náist strax. „Það tekur lengri tíma fyrir markaðinn að ná fyrri styrk. Það var alltaf fyrsta markmiðið hjá okkur í Isavia að ná til baka þeim flugfélögum sem voru fyrir."

24 flugfélög og 75 áfangastaðir

Fjöldi flugfélaga, sem munu fljúga í áætlunar- og leiguflugi til og frá Íslandi á næstu misserum, er 24 talsins, en fjöldinn var 25 sumarið 2019. Fjöldi áfangastaða er einnig komin nálægt því sem var fyrir faraldur. „Það eru margir áfangastaðir komnir til baka og eru þeir samtals 75 talsins, en voru 80 árið 2019. Það er því ýmislegt um að velja fyrir okkur Íslendinga þegar við skipuleggjum sumarfríið okkar."

Heildarfjöldi farþegar um Keflavíkurflugvöll var um 390 þúsund í nýliðnum aprílmánuði. Það er 82% af fjöldanum í sama mánuði árið 2019, en Grétar segir standa til að uppfæra farþegaforsendur fyrir árið á vegum Isavia í náinni framtíð.

„Ég tel að fjöldi ferðamanna á Íslandi á árinu verði á bilinu 1,4-1,5 milljónir manna eins og staðan er núna." Hann bendir á að Keflavíkurflugvöllur sé tengiflugvöllur og að margt velti á því hvenær Bandaríkjamenn slaki á takmörkunum á sínum landamærum. „Tengiflugin hafa farið aðeins hægt af stað, en það stafar af þeim takmörkunum sem enn eru í Bandaríkjunum. Það er spurning hvort þeim verði aflétt á næstu vikum eða mánuðum. Við verðum að bíða og sjá hvernig það þróast."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .