*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 28. október 2020 09:29

Kröftugur hagvöxtur árið 2022

Einkaneysla og útflutningur mun keyra áfram kröftugan hagvöxt árin 2022-2023. Fjármögnunarkostnaður hefur hækkað, þrátt fyrir vaxtalækkun.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í nýrri hagspá Arion banki er gert ráð fyrir 7,5% samdrætti á þessu ár og 2,5% hagvexti á því næsta. Reiknað er með kröftugum hagvexti árin 2022 og 2023 sem drifinn er áfram af einkaneyslu og útflutningi. Árið 2022 er spáð 5,9% hagvexti og 4,9% hagvexti árið 2023. Áður hafði dekksta hagspá viðskiptabankanna, hjá Íslandsbanka, gert ráð fyrir 8,6% samdrætti á þessu ári, 3,1% hagvexti á því næsta og 4,7% hagvexti árið 2022.

Fram kemur í hagspá Arion að efnahagshorfur fyrir veturinn hafa versnað á síðustu vikum. Hagspáin miðar við að áhrif Covid-19 á heimsbúskapinn taki að dvína fyrir alvöru á seinni hluta næsta árs. Gert er ráð fyrir 8,3% atvinnuleysi að meðaltali á næsta ári og að verðbólga verði yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans allt næsta ár. Ekki er gert ráð fyrir stýrivaxtahækkun þar sem verðbólga verður ekki lengi yfir markmið, vextir gætu hækkað um mitt ár 2022.

„Reiknað er með miklum samdrætti atvinnuvegafjárfestingar í ár, þrátt fyrir sögulega lága vexti. Fjármögnunarkostnaður hefur hækkað, þrátt fyrir lækkun stýrivaxta og fyrirheit um magnbundna íhlutun,“ kemur fram í hagspánni. Slík þróun gæti hægt á fjárfestingabatanum og því þarf að hlúa að fjárfestingu.

Arion banki spáir því að ferðamenn verði samtals tæplega 800 þúsund á næsta ári. Fjöldi ferðamanna voru tvær milljónir árið 2019. „Gert er ráð fyrir áframhaldandi húsnæðisverðshækkunum en að hægja muni á hækkunartaktinum þegar líður á næsta ár.“ 

Stikkorð: Hagspá