*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 24. ágúst 2019 14:32

Kröfu bandaríska ríkisins í Wow hafnað

Búið er að hafna 578 milljóna sértökukröfu bandaríska alríkisins í þrotabú Wow sem og forgangskröfu Skúla Mogensen.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Búið er að hafna 577,5 milljóna sértökukröfu bandaríska alríkisins í þrotabú Wow air. Sömu sögu er að segja af sértökukröfum Landverndar og Starfsmannafélags Wow, hvor um sig fimmtán milljónir. Einnig er búið að hafna forgangskröfum Ólafs Höskuldssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Títan, Stefáns Eysteins Sigurðssonar, fyrrverandi fjármálastjóra Wow, og Skúla Mogensen. Samtals námu þær um 80 milljónum. 

Lýstar kröfur í þrotabú Wow air voru tæplega 6.000 og námu alls rúmum 151 milljarði króna. Kröfur vegna launa námu fimm milljörðum króna en almennar kröfur 138 milljörðum króna. Talsverður fjöldi krafna barst skiptastjórum eftir að fresturinn rann út og eru þær því ekki í þessum tölum.

Þegar beiðni um gjaldþrotaskipti var lögð fram í héraðsdómi námu innistæður á bankareikningum félagsins þremur milljónum króna. Þær eru nú um 1,1 milljarður. Í máli skiptastjóra kom fram að vonir þeirra standi til þess að um milljarður til viðbótar muni koma í búið. Ljóst er að ekkert mun koma til með að fást upp í almennar kröfur og ekki verður tekin afstaða til þeirra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér