Ríflega 14 milljón króna krafa Stefáns Eysteins Stefánssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Wow air, nýtur ekki stöðu forgangskröfu við skipti á þrotabúi flugfélagsins. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem sneri með því úrskurðum Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur.

Niðurstaðan þýðir að kröfunni verður skipað meðal almennra krafna en ekki eru taldar nokkrar líkur á því að nokkuð muni fást upp í almennar kröfur. Krafa Stefáns var til kominn vegna launa í marsmánuði og tólf mánaða uppsagnarfresti en launakröfur teljast almennt til forgangskrafna. Á því er gerð sú undantekning að krafa þeirra sem teljast nátengdir þrotamanni fá ekki forgang við skiptin.

Skiptastjórarnir töldu að svo væri háttað til um Stefán enda hefði hann verið einn af æðstu stjórnendum félagsins og haft prókúruumboð fyrir hönd þess. Stefán byggði á móti á því að rekstur hefði alfarið verið í höndum forstjóra, aðstoðarforstjóra og aðrar helstu ákvarðanir hefðu verið teknar af rekstrardeild.

Í úrskurði héraðsdóms kom fram að það að einstaklingur væri framkvæmdastjóri fjármálasviðs dygði eitt og sér ekki til þess að hann teldist nákominn þrotamanni. Meira þyrfti að koma til. Ekki var fallist á að daglegur rekstur hefði verið í höndum hans og að seta hans í framkvæmdastjórn hefði ekki dugað til að hann hefði getað haft áhrif á rekstur félagsins. Þá þótti ekki sýnt fram á að hann hefði tekið stórvægilegar ákvarðanir á grundvelli prókúruumboðsins.

Niðurstaða um aðra framkvæmdastjóra skipti litlu

Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt Stefán hafi haft samráð við forstjóra félagsins, Skúla Mogensen, um einstakar ákvarðanir yrði ekki hjá því litið að hann hafði ríkar heimildir til að skuldbinda félagið. „Hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu varnaraðila að heimild hans til að skuldbinda félagið hafi í öllum tilvikum verið háð samþykki forstjóra félagsins. Þvert á móti var varnaraðili í stöðu til að hafa áhrif á stefnumótun félagsins og hafði raunverulegt vald til mikilsverðra ákvarðana á grundvelli fyrrgreindra heimilda,“ segir í dóminum.

Þá hefði hann setið fundi stjórnar og veitt henni upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins. Í skýrslutöku af aðstoðarforstjóra hjá skiptastjórum kom fram að stjórn hefði verið í góðum tengslum við lykilstjórnendur, það er aðstoðarforstjóra, fjármálastjóra og yfirlögfræðing, sem hefðu undirbúið og setið flesta stjórnarfundi.

Með hliðsjón af stöðu Stefáns í skipuriti Wow, stærðar þess og eðli rekstrarins, heimildar hans til að skuldbinda félagið, yfirsýnar yfir fjárhagsstöðuna auk stjórnunarheimildar yfir starfsfólki, taldi rétturinn að Stefán teldist lykilstjórnandi og þar með nákominn þrotamanni í skilningi gjaldþrotaskiptalaganna.

„Breytir engu um þá niðurstöðu þótt eigandi félagsins og á tímabili aðstoðarforstjóri hafi jafnframt stýrt daglegum rekstri þess eða hvort launakröfur framkvæmdastjóra annarra stoðsviða hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur við gjaldþrotaskiptin,“ segir í niðurlagi dómsins.

Hvor aðili fyrir sig var látinn bera sinn hluta málskostnaðar á öllum dómstigunum þremur.