Héraðsdómur Reykjaness hefur hafnað kröfu frá Datacell og Sunshine Press Productions á hendur Valitor um að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta, samkvæmt fréttatilkynningu frá síðastnefnda félaginu.

„Niðurstaðan var fyrirséð enda bjó engin lögvarin skaðabótakrafa að baki málatilbúnaði Datacell og SPP. Auk þess er fjárhagsleg staða Valitor mjög sterk og fyrirtækið fullkomlega fært um að greiða allt sem því ber,“ segir í tilkynningunni.

Málið á rætur sínar að rekja til lokunar Valitor á greiðslugátt til Datacell árið 2011, en fyrirtækið safnaði greiðslum fyrir Wikileaks. Fjárhæð gjaldþrotskröfunnar nam 10,3 milljörðum króna ásamt vöxtum.

„Valitor lítur það mjög alvarlegum augum að fyrirtæki á borð við Datacell og SPP, komist upp með að nýta sér nýtilkomna glufu í íslenskum lögum til að leggja fram gjaldþrotskröfu, sem er algerlega órökstudd og í engu samræmi við tilefnið. Farsakennd kröfugerð af þessu tagi á hvorki heima í íslensku dómskerfi né íslensku viðskiptaumhverfi.“