Hæstiréttur hefur vísað frá dómi kröfu tveggja aðila og hafnað beiðni þriðja sakborningsins í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, en þeir höfðu allir krafist þess að fá afhent gögn vegna yfirvofandi réttarhalda yfir sér.

Hafði Héraðsdómur Reykjavíkur áður hafnað beiðni mannanna þriggja, en í úrskurði hæstaréttar sagði að afhending gagnanna yrði til þess að draga málið fram úr hófi á langinn.

Hafa aðgang í húsakynnum ákæruvaldsins

Einnig voru gögn sem einn sakborninganna bað um ekki sögð hafa sönnunargildi í málinu. Héraðssaksóknari hafði boðið ákærðu og verjendum þeirra að hafa aðgang að gögnunum í húsakynnum embættisins, sem þeir sættu sig ekki við.

Um er að ræða þá Lárus Welding, forstjóra Glitnis fyrir hrun, Jóhannes Baldursson, framkvæmdastjóra markaðsviðskipta bankans og Pétur Jónasson, fyrrverandi starfsmann deildar eigin viðskipta hjá Glitni.

Sagðir hafa haldið verðinu uppi í 331 dag

Þeir þrír ásamt þeim Jónasi Guðmundssyni og Valgarði Má Valgarðssyni, þáverandi stjórnendum deildar eigin viðskipta, ákærðir fyrir allsherjarmarkaðsmisnotkun með því að reyna að halda uppi hlutabréfaverði Glitnis í næstum eitt og hálft ár, eða í 331 viðskiptadag í kauphöllinni.

Allir sakborningarnir hafa neitað sök. Lárus krafðist þess að fá afhent gögn um kauprétti, kaupréttaráætlanir, veitta kauprétti og nýtingu þeirra. Jóhannes krafðist þess að fá aðgang að öllum gögnum sem héraðssaksóknari hefði aflað og afnot af forriti til leitar í tölvupóstum.

Pétur vildi fá afhent gögn úr gamla tölvupósthólfi sínu hjá Glitni. Hæstiréttur hafnaði kröfu Péturs á þeim forsendum að hann gæti kynnt sér gögnin hjá héraðssaksóknara, en kröfum Lárusar og Jóhannesar var vísað frá því þau lagaákvæði sem vísað var til gæfu ekki heimild til afhendingar.