Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hafnaði í dag kröfu minnihluta í eigendahópi Vinnslustöðvarinnar (VSV) um lögbann við afhendingu hlutabréfa og formlegum frágangi nýlegs samnings um sameiningu VSV og Ufsabergs útgerðar ehf. í Vestmannaeyjum. Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV tilkynnir um niðurstöðuna í tilkynningu til fjölmiðla í dag.

Félög í eigu Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona, Stilla útgerð ehf. og KG fiskverkun, og Guðmundur sjálfur fóru fram á lögbannið.

Tilkynning um sameiningu VSV og Ufsabergs var send hlutafélagaskrá þann 25. september sl og hafa félögin þegar sameinast undir nafni Vinnslustöðvarinnar. Félagið Ufsberg útgerð er ekki lengur til, VSV hefur tekið við réttindum þess og skyldum. Í tilkynningu frá Sigurgeiri segir að með kröfu um lögbann vildu gerðarbeiðendur koma í veg fyrir að VSV gæti gengið frá skráningu og afhendingu hlutabréfa til fyrrum eigenda Ufsaberg.

„Hæstaréttarlögmennirnir Helgi Jóhannesson  og Ragnar H. Hall  gættu hagsmuna VSV og fyrrum eigenda Ufsabergs útgerðar gagnvart lögbannskröfunni þegar beiðni þar að lútandi var tekin fyrir hjá embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum. Í greinargerðum þeirra er því harðlega mótmælt að lagaskilyrði séu til að verða við kröfum gerðarbeiðenda, enda hafi félögin tvö sameinast í raun og réttaráhrif samrunans komið fram að fullu 21. september 2011 þegar tillaga um sameiningu var samþykkt á hluthafafundi í VSV.

Þá kemur fram í gögnum lögmannanna að sameining VSV og Ufsabergs útgerðar hafi verið í deiglunni um hríð eða frá því nokkru eftir að VSV keypti 35% hlut í Ufsabergi útgerð árið 2008. Samrunaáætlun hafi verið undirrituð 29. júní 2011 í kjölfar samnings um að eigendur Ufsabergs útgerðar keyptu 2,5% eignarhlut í VSV. Þáverandi eigendur Ufsabergs útgerðar teljist nú þegar vera hluthafar í VSV og hið eina, sem út af standi, sé skráning hlutabréfa og tilheyrandi frágangur í tengslum við samrunann,“ segir í tilkynningunni.

Viðskiptablaðið greindi frá því í ágúst að meirihluti hluthafa í VSV felldi tillögu bræðranna Guðmundar og Hjálmars, sem kenndir eru við Brim, þess efnis að félagið myndi höfða skaðabótamál gegn framkvæmdastjóranum, Sigurgeiri Brynjari, og nokkrum núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum félagsins vegna kaupa á 35% hlut í Ufsabergi. Mikil átök hafa veirð í hluthafahópi Vinnslustöðvarinnar í langan tíma, þar helst á milli forsvarsmanna og eigenda Stillu útgerðar ehf., sem er í eigu Guðmundar Kristjánssonar.