Hæstiréttur Íslands hafnaði í dag kröfu Sigurjóns Þ. Árnasonar um að fá dómskvadda matsmenn til að bera vitni í Landsbankamálinu. Það er stórt markaðsmisnotkunar- og umboðssvikamál sem ákært var í fyrir um það bil ári síðan. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður hafnað kröfunni.

Sigurjón kvað tilgang með beiðni um dómkvaðningu matsmanna vera að afla sönnunargagna til stuðnings þeirri málsvörn að háttsemi hans og annarra hafi verið lögmæt og að þau viðskipti sem í ákæru eru talin markaðsmisnotkun hafi verið í samræmi við reglur og áralangar viðskiptavenjur á hlutabréfamarkaði, sem allir markaðsaðilar hafi þekkt og eftirlitsaðilar, Fjármálaeftirlitið og Kauphöllin, hafi ekki gert athugasemdir við.

Sigurjón telur að hluti af þeim gögnum sem óskað er eftir að matsmenn taki saman séu grundvallargögn í málinu og hefði átt að afla þeirra við rannsókn þess hjá sérstökum saksóknara. Ekki verði einvörðungu byggt á upplýsingum Fjármálaeftirlitsins um aðstæður á markaði og markaðsframkvæmd.

Sigurjón telur að þau viðskipti sem hann er ákærður fyrir hafi verið lögleg. Bankinn hafi verið viðskiptavaki með bréf í sjálfum sér og því gert tilboð í eigin bréf.