Kröfuhafar eignarhaldsfélagsins FS7 ehf. sem var í eigu Finns Ingólfssonar afskrifuðu rúma 5 milljarða króna kröfur sem þeir lýstu í þrotabú félagsins. Einkahlutafélagið var tekið til gjaldþrotaskipta í ágúst í fyrra og lauk skiptum í búinu um miðjan þennan mánuð.

Finnur er fyrrverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra auk þess sem hann var um tíma seðlabankastjóri. Finnur var jafnframt stór hluthafi í Icelandair Group í gegnum FS7. Skilanefnd Landsbankans tók hlutinn yfir vorið 2009. Hlutur Finns var þá kominn inn í eignarhaldsfélagið Langflug sem átti með öðrum 24% hlut í Icelandair Group.

Í DV í dag kemur fram að engar eignir hafi fundist í þrotabúi FS7 upp í tæplega 5,2 milljarða króna kröfur. Íslandsbanki var eini kröfuhafi félagsins, að sögn DV.

Finnur á m.a. enn hlut í bifreiðaskoðunarfyrirtækinu Frumherja og hrossaræktarbúið Vesturkot ásamt konu sinni.

Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum að Finnur riði ekki feitum hesti af rekstri Vesturkots. Tap þess nam tæpum 25,8 milljóna króna árið 2010. Bókfært eigið fé búsins var á sama tíma neikvætt um 40,8 milljónir króna. Eignir félagsins voru undir lok ársins metnar á 177 milljónir króna.

Á Vesturkoti er 30 hesta hús, 900 fermetra reiðskemma og uppbyggður reiðvöllur með um 250 metra skeiðbraut.