Kröfuhafar Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur (SpKef) hafa verið kallaðir að borðinu á nýjan leik og er þess nú freistað að endurreisa sjóðina í nýjum félögum með kröfuhöfum í bú sjóðanna sem féllu fyrr á þessu ári. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa álitamálin um lögmæti gengistryggðra lána, þá helst dómur Hæstaréttar frá 16. júní sl. þess efnis að gengistryggð lán í krónum væru ólögleg, valdið því að mál hafa tafist. Þá helst þar sem óvissa ríkir um verðmæti lánasafna sjóðanna. Unnið hefur verið að því að undanförnu að greina áhrif dóms Hæstaréttar á lánasöfn sjóðanna og hefur Fjármálaeftirlitið (FME) þegar dregið upp myndir af því hver áhrif dómsins geta orðið.

Í versta falli verður efnahagur sjóðanna svo slæmur að kröfuhafarnir sjá sér ekki hag í því að verða í hluthafahópi hinna endurreistu sjóða. Miklar vonir eru þó bundnar við að kröfuhafarnir komi að endurreisn Byrs og SpKef, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenska ríkið.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) komið þeim skilaboðum ítrekað til íslenska ríkisins að ekki sé skynsamlegt að binda meiri fjármuni í fjármálakerfinu en þegar hefur verið gert. Þrátt fyrir það hefur staða mála er varðar sparisjóðakerfið verið metin með þeim hætti að ríkið þurfi að koma sparisjóðunum til bjargar en þó með eins litlum kostnaði og mögulegt er. Ekki síst þess vegna er horft til þess að fá kröfuhafana að endurreisninni.

Eva B. Helgadóttir, formaður slitastjórnar Byrs, segir að viðræður við kröfuhafa séu á viðkvæmu stigi. Næsti fundur fer fram í byrjun september. "Dómur Hæstaréttar er varðaði gengistrygginguna hefur áhrif á þessar viðræður þar hann skapar óvissu um eignasafnið. Það þarf að eyða þeirri óvissu og leysa úr öðrum vandamálum áður einhverjar ákvarðanir verða teknar," segir Eva.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er svipað uppi á teningnum hjá SpKef. Það er að kröfuhafar vilji fá fram áreiðanlegar upplýsingar um áhrif dómsins á eignasafn SpKef áður en tekin er afstaða til þess hvernig eignarhald hlutafélags sem þegar hefur verið stofnað á grunni skuldbindinga sjóðsins verður.