Kröfuhafar Glitnis og Kaupþings hafa á síðustu vikum myndað hóp sem gengur undir nafninu krónuhópurinn (e. ISK working group), að því er segir í frétt Fréttablaðsins. Hlutverk hópsins er að kanna forsendur fyrir því að losa um eignir þrotabúanna, sérstaklega í íslenskum krónum. Þær nema tæpum 500 milljörðum króna. Stærstu íslensku eignir þeirra eru stórir eignarhlutir í Íslandsbanka og Arion banka en greint var frá því fyrr í febrúar að óformlegar viðræður væru hafnar við innlenda aðila um kaup á öðrum eða báðum bönkunum.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir í samtali við Fréttablaðið að krónuhópurinn hafi verið myndaður á síðustu tveimur vikum. Í honum sitji fulltrúar þrotabúa Glitnis og Kaupþings. „Þarna sitja stærstu kröfuhafar beggja búanna. Auk þess sitja í hópnum fulltrúar slitastjórna Glitnis og Kaupþings. Hlutverk hópsins er að fara yfir málin og tryggja hlutlæga og samræmda upplýsingamiðlun við stjórnvöld og í raun að kanna forsendur fyrir lausnum sem gætu verið ásættanlegar og komið báðum til góðs.“