Kröfuhafar Glitnis og Kaupþings gera sér fulla grein fyrir því að þeir þurfa að gefa eftir hluta eigna sinna í íslenskum krónum til að hægt verði að ganga frá nauðasamningum þrotabúanna tveggja. Kemur þetta fram í fréttaskýringu í Fréttablaðinu .

Þeir eru tilbúnir til að semja við íslensk yfirvöld, og eftir atvikum aðra innlenda aðila, um að selja bæði Íslandsbanka og Arion banka með afslætti gegn því að fá greitt með erlendum eignum. Þá vilja þeir koma öðrum íslenskum eignum sínum í einhvers konar fjárfestingar eða selja þær til innlendra aðila. Þetta hefur komið skýrt fram í viðræðum við aðila sem vinna fyrir báða kröfuhafahópana.

Samtals eiga bankarnir tveir 454 milljarða króna í íslenskum krónum. Þeirra stærstar eru eignarhlutir búanna í annars vegar Íslandsbanka og hins vegar Arion banka. Hópur, undir forystu Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), hefur óskað eftir óformlegum viðræðum um að kaupa allavega annan bankann, og er þar meira horft til Íslandsbanka. Hugmyndin er þá sú að FSÍ, lífeyrissjóðir landsins og eftir atvikum aðrir fjárfestar sem hafa bolmagn til að taka þátt í svona stórum fjárfestingum, bankarnir tveir eru samanlagt bókfærðir á 212 milljarða króna, muni fá að kaupa bankana með miklum afslætti.

Í frétt Fréttablaðsins segir að talað hafi verið um að það þyrfti að vera á bilinu 30 til 50 prósenta afsláttur. Ef kröfuhafarnir fallast á það eru íslensku fjárfestarnir mögulega tilbúnir til að nota erlendar eignir til að greiða fyrir bankana.