Búið er að taka fyrir að stjórnendur bankanna fái risabónusa sem tengdir eru við skammtímagróða og því ómögulegt fyrir þá að þeir skrúfi afkomu bankanna upp á milli ársfjórðunga. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í samtali við Fréttablaðið, og útilokar að álíka kaupaukakerfi verði komið á í bönkunum og var fyrir hrun. Kaupaukakerfið í Landsbankanum er til komið vegna óska kröfuhafa bankans, að hans sögn.

Fram kom í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti, í síðustu viku, að samkvæmt kaupaukakerfinu sem er í mótun innan Landsbankans þá munu starfsmenn eignast tveggja prósenta hlut í bankanum þegar lokauppgjör fer fram á milli þrotabús gamla Landsbankans og þess nýja í lok árs. Hluturinn er um fjögurra milljarða króna virði.

Steingrímur segir að í samningum við kröfuhafa gamla Landsbankans fái starfsmenn nýja bankans að njóta þess með kaupaukum ef vel gengur.

„Þeir voru raunar með miklu meiri kröfur í þeim efnum sem við féllumst ekki á,“ segir Steingrímur.