Aðeins fengust greiddar rúmar 7,7 milljónir króna af forgangskröfum upp í rúmlega 112 milljóna króna kröfur þrotabús félagsins X-75 ehf. Félagið var í eigu eignarhaldsfélagsins Kaupangurs í Kópavogi og rak það Bókabúð Máls og Menningar við Laugaveg. Félagið tók við rekstrinum eftir að búðinni var lokað árið 2009. Félagið X-75 ehf fór svo í þrot í febrúar árið 2011 og skiptastjóri settur yfir búið.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að forgangskröfur námu 12,2 milljónum króna og fengust um 7,7 milljónir greiddar. Það jafngildir tæpum 64,5% krafna. Ekkert fékkst hins vegar upp í almennar kröfur upp á 100 milljónir.

Fram kemur í frétt mbl.is um skiptalokin að stærstu kröfuhafar voru eigendurnir Kaupangur, með kröfu upp á 20 milljónir króna vegna leigu og rafmangs, félagið Múli, sem tengist eigendum X-75, með 14 milljóna króna kröfur, og bókaútgáfurnar Bjartur og Veröld með kröfur upp á fimm milljónir króna. Þá nam krafa frá Arion banka upp á sjö milljónir króna.