Ríkisstjórnin horfir til þess að láta þrotabú gömlu bankanna greiða fyrir beinar niðurfellingar skulda með aukinni skattheimtu á þrotabúin. Um er að ræða niðurfellingar upp á 80-100 milljarða króna. Ekki á að grípa til þess ráðs að fjármagna þetta á efnahagsreikningi Seðlabanka Íslands samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Umdeild fjármögnun

Ein umdeildasta og erfiðasta hliðin á fyrirhuguðum skuldaniðurfellingum er hvernig fjármagna eigi ferlið. Horft hefur verið til þess að svigrúm eigi að myndast meðfram uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna. Þetta er þó hvergi nærri á næsta leiti og þarf því einhvern millileik til af hálfu ríkisstjórnarinnar til að fjármagna skuldaniðurfærslurnar. Þessi millileikur mun felast í því að skattleggja fjármálafyrirtæki í slitameðferð eða þrotabú gömlu bankanna eins og þau eru jafnan kölluð.

Slík skattlagning mun þó ekki ganga hljóðalaust fyrir sig. Slitastjórnir Glitnis og Kaupþings hafa þegar skilað umsögnum þar sem boðaðri skattlagningu í fjárlögum er mótmælt eins og fjallað hefur verið um á VB.is. Í umsögnum slitastjórnanna segir að umrædd skattlagning fyrir næsta ár brjóti gegn grundvallarákvæðum stjórnarskrárinnar. Þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem bæði Glitnir og Kaupþing telja að skattheimtan brjóti gegn eru ákvæði um jafnræði og eignarrétt. Að auki benda slitastjórnirnar á ákvæði um skattlagningu í 40. og 77. grein stjórnarskrárinnar.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .