Eignir Glitnis, Kaupþings og LBI eru nú metnar á um eina og hálfa landsframleiðslu. Innlendar eignir eru um 38% af heildareignum búanna en hlutfall innlendra krafna er aðeins tæplega 6%. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabanki Íslands kynnti í morgun.

„Við slit búanna mun því að öðru óbreyttu tæplega hálf landsframleiðsla af innlendum eignum koma í hlut erlendra kröfuhafa. Þjóðarbúið skapar ekki nægan gjaldeyri til þess að kröfuhafar geti leyst þessar eignir til sín út úr viðskiptajöfnuði, þvi er óvissa um framhald slitameðferðar búanna.,“ segir í ritinu.

Þá segir að lágmarka verði fyrirsjáanlegt ójafnvægi í greiðslujöfnuði þjóðarbúsins með því að draga úr vægi innlendra eigna í eignasöfnum búanna. Framhald slitameðferðarinnar velti nokkuð á því hvernig búin muni umbreyta innlendum eignum sem enn eru fastafjármunir í laust fé. Heildstæð lausn á málefnum búanna sé forsenda losunar fjármagnshaftanna.