Allar líkur eru á því að kröfuhafar gamla Kaupþings eignist allt að 87 prósent hlut í Arion banka í dag, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Skilanefnd Kaupþings fundaði með fulltrúum kröfuhafanna í London um helgina.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að örfá atriði standi út af borðinu og að fulltrúar íslenskra stjórnvalda og skilanefnd Kaupþings séu að vinna að úrlausn þeirra. Frestur skilanefndarinnar til að eignast meirihluta í bankanum rennur út á miðnætti og ekki stendur til að lengja þann frest.

Á bilinu 70 til 80 prósent kröfuhafanna eru skuldabréfaeigendur. Samsetning þess hóps mun ekki liggja fyrir fyrr en kröfulýsingafrestur í bú Kaupþings rennur út á gamlársdag.

Líkt og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins fyrir helgi þá hefur sá leðjuslagur sem geisað hefur á opinberum vettvangi um framtíð smásölurisans Hafa og meðferð Arions banka á lánum til eigenda Haga, 1998 ehf., dregið úr vilja kröfuhafanna til að eignast meirihluta í bankanum.