„Það verður að vera algjörlega kristaltært að hagsmunir erlendra kröfuhafa eru ríkjandi gagnvart því að þetta ferli gangi fyrir sig án þess að það kollvarpi íslenskum veruleika og verði viðráðanlegt fyrir þjóðarbúið,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Hann vill að umræðan um nauðasamninga föllnu bankana og uppgjör við kröfuhafa verði opin og mikil enda fylgist kröfuhafar grannt með málum hér. Eins og fram kom á dögunum hætti slitastjórn Glitnis við að leggja fram nauðasamninga bankans eins og stefnt var að fyrir áramót þar sem það var talið ógna fjármálastöðugleika landsins.

Steingrímur var einn í pallborði á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í dag um skuldastöðu þjóðarbúsins, gjaldeyrishöft sem hamlað fjármagnsflutningum síðastliðin fjögur ár og til hvaða ráða sé hægt að grípa til að aflétta þeim. Á meðal annarra frummælenda voru Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs hjá Seðlabankanum, og Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Viljum ekki lenda aftur í höftum

Steingrímur sagði gjaldeyrishöftin verða verri með hverjum deginum en vanda verði til verka við afnám þeirra. Á sama tíma gæti það reynst dýrkeypt fyrir landið að fara fram af glannaskap í afnámi þeirra og misstíga sig.

„Það gæti leitt til kollsteypu á nýjan leik. Við værum í verri stöðu til að taka á okkur nýtt högg og gætum lent inni í höftum á ný,“ sagði hann.