Hlutur núverandi eigenda Skipta, móðurfélags Símans, Mílu og tengdra fyrirtækja, mun þynnast verulega gangi eftir áform stjórnar félagsins um fjárhagslega endurskipulagningu. Í kjölfarið gætu kröfuhafar eignast Skipti. Á meðal þeirra tillagna sem liggja fyrir er breyting á skuldum í hlutafé. Klakki, móðurfélag VÍS er jafnframt eigandi alls hlutafjár í Skiptum.

Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta, sagði í samtali við vb.is í gær skuldir Skipta nema um 62 milljörðum króna og eru þær að mestu til komnar eftir kaup Exista á Landssímanum við einkavæðingu hans árið 2005. Skuldirnar samanstanda að mestu af sambankaláni sem er á gjalddaga í desember næstkomandi og skuldabréfaflokki sem er á gjalddaga í apríl á næsta ári.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram sambankalánið standi í 30 milljörðum króna. Arion banki leiði það auk þess sem Íslandsbanki og erlendir bankar komi að því. Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Gildi lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn og smærri fagfjárfestar eru svo eigendur skuldabréfaflokksins.