Atvinnuþróunarsvæðið við Reykjaneshöfn verður fært undan Reykjanesbæ og sett inn í sérstakt félag. Reykjanesbær mun í staðinn taka á sig hluta af núverandi skuldum hafnarinnar „á móti því að losna úr ábyrgð á hluta þess sem eftir stendur“. Þetta kemur fram í kynningu um fjárhagslega endurskipulagningu sem haldin var fyrir lánardrottna og eigendur fjármálagerninga sem höfnin hefur gefið út.

Fari allt á versta veg fá kröfuhafar beinan aðgang „að landareignum félagsins í gegnum gjaldfellingu og gjaldþrot“. Lánardrottnar Reykjaneshafnar hafa til 5. apríl til að ákveða hvaða leið verður farin. Reykjaneshöfn skuldaði 5,6 milljarða króna 1. mars síðastliðinn. Gríðarleg óvissa ríkir um þá atvinnukosti sem áttu að nýta höfnina en þar átti meðal annars að rísa álver. EBIDTA-framlegð hafnarinnar í fyrra var 65 milljónir króna. Þar af voru 46 milljónir króna í formi endurgreiddra fasteignaskatta.