Ný stjórn Íslandsbanka situr í umboði skilanefndar Glitnis, ekki kröfuhafa bankans. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins komu kröfuhafar Glitnis ekki með neinum hætti að skipun stjórnar ISB Holding, eignarhaldsfélag utan um 95 prósent eign í Íslandsbanka, né stjórnar bankans.

Á meðal stærstu kröfuhafa Glitnis eru vogunarsjóðir sem hafa verið duglegir að kaupa upp skuldabréf Glitnis á markaði síðan að bankinn hrundi í október 2008.

ISB Holding skipaði sex af sjö nýjum stjórnarmönnum í Íslandsbanka á aðalfundi hans fyrr í dag. Friðrik Sophusson verður stjórnarformaður nýrrar stjórnar og Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, skipaði sjálfan sig í stjórnina. Auk þeirra voru fjórir erlendir aðilar skipaðir. Þeir eiga allir að vera óháðir stjórnarmenn.