Andvirði þeirra bréfa sem Björgólfur Thor Björgólfsson fékk í bandaríska lyfjafyrirtækinu Watson, þegar Watson keypti Actavis í vor, hefur hækkað um tæp 40% frá því að kaupin gengu í gegn.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun maí sl. steig Björgólfur Thor stórt skref í skuldauppgjöri sínu við kröfuhafa með sölunni á Actavis. Watson keypti félagið á 4,25 milljarða evra, eða um 700 milljarða króna.

Stærsti hluti þess fjármagns rann til helsta kröfuhafa Björgólfs Thors, þýska bankans Deutsche Bank, en auk þess eignaðist Björgólfur Thor fyrrnefndan hlut í Watson. Með því hvarf stærsti, og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins aðgangsharðasti kröfuhafinn, út úr myndinni. Eftir sitja þrír stórir kröfuhafar sem allir eru þrotabú fallinna banka.

Það var svo sem vitað að skuldauppgjör Björgólfs Thors myndi taka einhvern tíma og í raun má segja að uppgjörið sé nú rúmlega hálfnað. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður því þó ekki hraðað þannig að enn eru einhver ár í að því ljúki.

Nánar er fjallað um stöðuna á skuldauppgjöri Björgólfs Thors í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.