Kröfuhafar Askar Capital hafa nú tekið yfir félagið en í tilkynningu frá Askar til Kauphallarinnar þann 15. maí sl. kom fram að allir óveðtryggðir lánveitendur móðurfélags Askar hefðu samþykkt tillögur félagsins um fjárhagslega endurskipulagningu.

Í tilkynningu frá Askar í dag kemur fram að kröfuhafarnir hafi nú tekið yfir félagið. Stærsti hluthafi félagsins er Glitnir Banki hf. með 53,3% hlut en næststærsti hluthafi er Saga Capital hf. með 18,1% hlut.

Tíu aðrir hluthafar eiga samtals 28,6% hlut í félaginu. Hlutafé fyrri hluthafa hefur verið fært niður að fullu en Moderna Finance AB átti 80,8% á móti 19,2% hlut 15 annarra hluthafa.

Aðalfundur Askar Capital var haldinn þann 19. júní sl. Á fundinum var ársreikningur félagsins fyrir árið 2008 samþykktur og ný stjórn kjörin. Í aðalstjórn félagsins tóku sæti:

  • Eiríkur Jóhannsson frkvstj.,
  • Gestur Jónsson hrl.,
  • Heimir Haraldsson lögg. endurskoðandi,
  • Ragnar Halldór Hall hrl. og
  • Þórólfur Jónsson hdl.

Eigið fé Askar Capital samstæðunnar að loknum þessum breytingum er um átta milljarðar króna og eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki um 19%.